Breytum
Leiknum

Við erum ný kynslóð, mætt til að ögra viðmiðum

Hvernig breytum við venjunum?

Í karllægum heimi íþróttanna er mikilvægt að tryggja það að kynjajafnrétti sé til staðar. Í gegnum tíðina hafa konur fengið minna greitt fyrir sömu vinnu, hvort sem um er að ræða leikmenn, þjálfara, dómara, stjórnendur eða aðra. Stelpur fá jafnframt minna pláss í umræðunni um íþróttir og  fá síður lof fyrir góðan árangur. Litlir hlutir skipta máli í stóra samhengingu og áðurnefnd dæmi hafa raunveruleg áhrif á stöðu kvenna í íþróttaheiminum. Til að bæta stöðuna, svo að íþróttasamfélagið sé hvetjandi umhverfi sem konur vilja vera partur af til lengri tíma, þá væri t.d. hægt að borga konum sambærileg laun á við menn, fjalla meira um þær, mæta á leiki, veita þeim viðurkenningu fyrir góð störf, og almennt styðja þær til árangurs.

Hvernig breytum við frösunum?

Umræðan í samfélaginu skiptir óneitanlega miklu máli og fjölmiðlar, foreldrar og skólaumhverfið hafa mikil áhrif á skoðanir og viðhorf barna og unglinga til hinna ýmsu málefna. Frasar á borð við að gera eitthvað „eins og stelpa/kelling“ hefur í gegnum tíðina verið notaðir sem móðgun til að lítillækka og kvengera karlmenn. Mikilvægur þáttur í því að breyta hugmyndum okkar um konur í íþróttum (og konur almennt) er að taka eftir svona talsmáta og gagnrýna hann. Að gera eitthvað eins og kona má þýða það að gera eitthvað vel. Jafnframt þá getur það, að tala t.d. um landsliðið annars vegar og kvennalandsliðið hins vegar, verið óæskileg orðanotkun. Ef við viljum aðgreina kvenna- og karlaliðin í umfjöllun um íþróttir er mikilvægt að það gildi jafnt um bæði kyn.

Hvernig breytum við mætingunni

Hvort sem þú æfir íþróttir eða ekki þá getur þú haft gríðarleg áhrif á leikinn. Stelpurnar eru nú þegar til staðar í leiknum og það er á ábyrgð okkar hinna að tryggja sýnileika þeirra og styðja við bakið á þeim. Tölum um þær, mætum á leiki, hvetjum þær áfram, skrifum fréttir um árangurinn þeirra og jöfnum hlutverk kynjanna í stjórnunarstöðum sem viðkoma íþróttahreyfingunni. Mætum og tökum þátt í samfélags- og fjölmiðlaumfjöllun. Stuðningurinn og utanumhaldið skiptir gríðarlega miklu máli fyrir íþróttafólk og eflir það til dáða. Það erum við sjálf sem myndum íþróttahreyfinguna og við getum mótað hana þannig að hún styðji við og bjóði alla velkomna.

Hvernig breytum við fyrirmyndunum?

Í samfélaginu okkar er nógu mikið pláss fyrir velgengni okkar allra. Það er mikilvægt að fyrirmyndir okkar séu fjölbreyttar svo að sem flestir geti speglað sig í þeim, hvort sem það eru konur, karlar eða jaðarsettir hópar. Við höfum öll áhrif á fólkið í kringum okkur, meðvitað og ómeðvitað, en hvort viljum við að þau séu jákvæð eða neikvæð áhrif? Fjalla ég sem fréttamaður jafnt um leiki íþróttakvenna og íþróttakarla og fjalla ég um íþróttakonur og -karla á svipaðan hátt í umfjöllun minni? Passa ég upp á það sem stjórnandi íþróttafélags að þjálfarar innan félagsins séu bæði karlar og konur og fá konur pláss í stjórn félagsins þar sem mikilvægar ákvarðanir eru teknar, jafnvel þær sem varða hagsmuni kvenna? Hvernig tala ég sem foreldri um konur í íþróttum í kringum börnin mín? Sem íþróttaþjálfari, sé ég til þess að framkoma mín sé vönduð og byggð á virðingu í garð iðkendanna minna? Er ég fyrirmynd?

Hvernig breytum við viðhorfinu?

Íþróttirnar eiga að vera lausar við kynferðislega áreitni, fordóma og annað ofbeldi. Verði íþróttakonur fyrir ofbeldi innan íþróttanna er mikilvægt að þær geti sagt frá því og leitað réttar síns án þess að það hafi áhrif á framtíðarmöguleika þeirra í íþróttunum. Það er ekki nóg fyrir íþróttafélög og stjórnendur að segjast styðja jafnrétti heldur þurfa þau að tryggja það að iðkendum sem stíga fram sé trúað og að hart sé tekið á öllu ofbeldi. Hvers kyns fordómar og ofbeldi hafa áhrif á líðan og sjálfstraust iðkenda sem getur haft gríðarleg áhrif á árangur þeirra og eykur líkurnar á brotthvarfi þeirra úr íþróttunum. Hægt er að koma í veg fyrir ofbeldi að miklu leyti með fræðslu um eðlileg samskipti og mörk, sem og aukinni eftirfylgni stjórnenda.

Hvernig breytum við stefnunni?

Kynbundið misrétti á sér stað í íþróttum rétt eins og annars staðar í samfélaginu og mikilvægt er að við horfumst í augu við það í stað þess að sópa því undir teppið. Það þarf markvisst að vinna að því að tryggja jafnrétti innan íþróttahreyfingarinnar, bæði til að konur vilji halda áfram í íþróttum en einnig til að vekja áhuga ungra og efnilegra stelpna á íþróttum. Ef við viljum raunverulega bæta stöðuna, hlustum þá á íþróttakonur. Hvað eru þær að segja? Um hvað eru þær að biðja? Það þarf að leggja línurnar fyrir framtíðina og tryggja það að ungar íþróttakonur fái pláss til að ná árangri í sinni íþrótt og láta ljós sitt skína. Íþróttir eru fyrir alla. Breytum leiknum og tryggjum það.

Finndu félag nálægt þér

Mætum og breytum leiknum saman!

2X

Við 14 ára aldur er
hlutfall stúlkna sem hætta
íþróttaiðkun tvöfalt hærra en hjá drengjum

78%

Af þeim stelpum
sem hættu sáu ekki neina
framtíð fyrir sér í
íþróttum eða töldu sig
ekki nægilega góðar

4%

Af allri íþróttaumfjöllun
í heiminum er um
konur

Um verkefnið

Ef við veltum upp spurningunni um það hvers vegna einungis 4% af allri íþróttaumfjöllun í heiminum er um konur þá vakna óneitanlega upp margar mikilvægar vangaveltur. Þessar vangaveltur einskorðast ekki einungis við íþróttavöllinn, heldur eiga rætur að rekja til stærra samfélagslegs samhengis og rótgróinna venja.  

HSÍ fór því af stað með átakið #BreytumLeiknum til þess að breyta gömlum og úreltum viðhorfum innan íþróttahreyfingarinnar gagnvart ungum stúlkum.

Markmiðið með átakinu er að skapa heim þar sem stelpur eru sjáanlegar í íþróttasamfélaginu og eiga sér sterkar og mikilvægar fyrirmyndir. Með þessu vill HSÍ ýta undir iðkun ungra stúlka bæði með meiri umfjöllun og betri umgjörð.  

Markmið okkar felur einnig í sér að bæta ímynd kvennahandboltans og landsliðsins og fá fleiri ungar stelpur til þess að byrja að æfa handbolta, og stunda íþróttir lengur. Tölfræðin sýnir að strax á 14 ára aldri eru stelpur tvisvar sinnum líklegri til að hætta í íþróttum en strákar og 17 ára gamlar eru helmingur stelpna hættar að æfa íþróttir. Tími barna í íþróttum er talinn vera 10 ár og 78% þeirra stelpna sem hætta segjast ekki sjá fyrir sér neina framtíð í íþróttinni eða telja sig ekki hafa verið nógu góðar. Þessu þurfum við að breyta.  

Samfélagslegur ávinningur af aukinni þátttöku stelpna í íþróttum er mikill. Rannsóknir sýna að íþróttir ýta undir sterkari sjálfsímynd krakka og eru mikilvæg forvörn gegn neyslu vímuefna. Jákvæð tengsl eru jafnframt á milli íþrótta og góðrar andlegrar heilsu,  þær byggja upp aga og félagsfærni en nýlegar kannanir benda til þess að þar séu íslensk börn eftirbátar annarra.  

Við ætlum ekki að sitja hjá. Við ætlum að leggja okkar að mörkum og breyta leiknum, hvað með þig?